Um losunarbókhald
Bókhald yfir losun gróðurhúsalofttegunda nær yfir þær 7 gróðurhúsalofttegundir sem landsbókhald Íslands nær til, þ.e. koldíoxíðs (CO2), metans (CH4), glaðlofts (N2O), vetnisflúorkolefna (HFC), perflúorkolefna (PFC), brennisteinshexaflúoríðs (SF6) og köfnunarefnistríflúoríðs (NF3). Losun framangreindra 7 gróðurhúsalofttegunda er gefin upp í tonnum CO2-ígilda, að teknu tilliti til mismunandi hlýnunarmáttar lofttegundanna. Hlýnunarmáttur (global warming potential) er tala sem tekur mið af áhrifum mismunandi gróðurhúsalofttegundanna á geislunarjafnvægi í lofthjúpnum og þar með áhrifum þeirra til hækkunar hitastigs á jörðinni.
Sveitarfélög geta haldið sérstakt losunarbókhald fyrir eigin starfsemi. Bókhald af þessu tagi gefur góða yfirsýn yfir þá þætti sem sveitarfélagið getur haft hvað mest áhrif á og nýtist því vel þegar lagt er á ráðin um aðgerðir til að minnka kolefnisspor sveitarfélagsins. Bókhald af þessu tagi er jafnframt lykilatriði til að uppfylla ákvæði loftslagslaga. Þegar litið er til losunar frá eigin starfsemi sveitarfélaga er horft til reksturs bílaflota, rafmagnsnotkun húsnæðis á vegum sveitarfélagsins og meðhöndlun úrgangs frá starfseminni.
Önnur leið er að tilgreina losun frá sveitarfélaginu í heild, svokallaða samfélagslega losun eða landfræðilega losun, og á það við alla losun frá sveitarfélaginu, þ.e. íbúum, fyrirtækjum, stofnunum, samgöngum, landnotkun og annarri starfsemi innan sveitarfélagsmarka.
Losun frá rekstri sveitarfélaga
Við mat á losun gróðurhúsalofttegunda frá rekstri sveitarfélaga er farið eftir aðferðafræði og leiðbeiningum svokallaðs fyrirtækjaleiðarvísis (GHG-Protocol), sem ætlaður er rekstraraðilum sem vilja halda bókhald yfir losun sína á gróðurhúsalofttegundum. Leiðarvísirinn er notaður af rekstraraðilum víða um heim og samkvæmt honum er losun metin fyrir þrjú mismunandi svið eftir því hvar losunin á sér stað í virðiskeðju starfseminnar. Þessi svið hafa verið nefnd losunarsvið 1-3 (scope 1-3). Í fyrsta lagi er um að ræða beina losun vegna starfsemi sem er í eigu rekstraraðilans eða er stýrt af honum (losunarsvið 1). Í öðru lagi er um að ræða óbeina losun vegna kaupa rekstraraðilans á rafmagni, gufu, hita eða kælingu (losunarsvið 2). Í þriðja lagi er svo um að ræða óbeina losun í virðiskeðju rekstraraðilans, bæði aðfangamegin (up-stream) og frálagsmegin (down-stream) (losunarsvið 3).
Helstu þættir sem hafa áhrif á losun sveitarfélaga sem rekstraraðila eru eftirfarandi, skipt eftir því hvar losunin á sér stað (eftir losunarsviði):
1. Bein losun (og binding) – Losunarsvið 1
a. Starfsemi (vinnuvélar o.fl.)
b. Akstur (ökutæki)
2. Orkukaup – Losunarsvið 2
a. Raforka
3. Óbein losun í virðiskeðju – Losunarsvið 3
a. Flutningur aðkeypts varnings
b. Flugferðir starfsfólks innanlands
c. Flugferðir starfsfólks utanlands
d. Ferðir starfsfólks til og frá vinnu
e. Meðhöndlun úrgangs
f. Áburðarnotkun á opnum svæðum
g. Flutningstöp raforku
h. Losun vegna framleiðslu og flutninga jarðeldsneytis (WTT: Well to tank)
Bein losun – Losunarsvið 1
Undir beina losun falla þættir á borð við rekstur vinnuvéla og akstur bifreiða sem notaðar eru í starfsemi sveitarfélagsins. Losun vegna eldsneytisnotkunar vinnuvéla og bifreiða er reiknuð út fá eldsneytiskaupum skv. bókhaldi sveitarfélagsins. Sundurliðun á milli tækja annars vegar og bifreiða hins vegar er ekki hafin yfir vafa, en þessi sundurliðun hefur tiltölulega lítil áhrif á losunina. Til að auðvelda aðgerðir til að draga úr losun væri æskilegt að hægt væri að sundurliða notkunina eftir tækjum og halda jafnframt skrá yfir notkun (kílómetrafjölda eða vinnustundir) hvers tækis um sig. Þannig væri mögulegt að greina hvar séu helst tækifæri til úrbóta.
Orkukaup – Losunarsvið 2
Undir orkukaup fellur öll óbein losun vegna kaupa á rafmagni, gufu, hita og/eða kælingu. Hér er þá átt við losun sem verður við framleiðslu orkunnar. Meðallosun vegna raforkuframleiðslu á Íslandi er reiknuð árlega í tengslum við skil á losunarbókhaldi Íslands til skrifstofu Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna.
Óbein losun í virðiskeðju – Losunarsvið 3
Undir óbeina losun í virðiskeðju sveitarfélagsins fellur losun sem verður vegna aðfanga fyrir starfsemina og frálags frá henni, þ.m.t. vegna flutnings á aðkeyptum varningi, vegna flugferða starfsfólks innanlands og utan, vegna ferða starfsfólks til og frá vinnu, vegna meðhöndlunar úrgangs sem fellur til í starfsemi sveitarfélagsins, flutningstapa raforku o.s.frv. Losun vegna þessara þátta er reiknuð eftir því sem tiltæk gögn gefa tilefni til.
Um losunarreikninn fyrir sveitarfélög
Losunarreiknirinn á þessari vefsíðu er sniðinn að rekstri sveitarfélaga. Reiknirinn byggir að miklu leyti á losunarstuðlum sem Umhverfisstofnun gefur út en einnig er stuðst við losunarstuðla úr landsbókhaldi Íslands, opinbera breska losunarstuðla og upplýsingar úr reiknivél alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO). Losunarreiknirinn reiknar út losun vegna brennslu jarðefnaeldsneytis, rafmagnsnotkunar, flugferða starfsfólks innanlands og utan, meðhöndlunar úrgangs, flutningstapa raforku og framleiðslu og flutninga á jarðefnaeldsneyti (frá olíulind til tanks; e. WTT (well to tank)).
Í þessum fyrsta fasa eru eftirfarandi losunarþættir ekki teknir með í reiknivélina, en mögulega verður hægt að taka þá inn síðar:
- Flutningur aðkeypts varnings
- Ferðir starfsfólks til og frá vinnu
- Áburðarnotkun á opnum svæðum
Nauðsynlegar upplýsingar fyrir losunarreikninn fást yfirleitt hjá birgjum eða úr bókhaldi sveitarfélagsins. Gert er ráð fyrir að sveitarfélög setji gögn inn í losunarreikninn og gagnagáttina árlega.
Í losunarreikninum eru reitir þar sem viðkomandi starfseining innan sveitarfélagsins og/eða sveitarfélagið sjálft getur slegið inn upplýsingar um aðföng sem notuð eru í starfseminni og aðra þá þætti sem máli skipta í útreikningunum. Líkanið reiknar losun jafnóðum út frá þeim upplýsingum sem slegnar eru inn. Niðurstaðan er birt sem losun gróðurhúsalofttegunda, mæld í kg eða tonnum CO2-ígilda. Losunin er sundurliðuð eftir losunarsviðum. Einnig eru niðurstöðurnar birtar grafískt.