Gerð loftslagsstefnu

Hér má finna leiðbeiningar um gerð og innleiðingu loftslagsstefnu fyrir sveitarfélög. Við gerð loftslagsstefnu er gott að fylgja eftirfarandi verklagi:

Skref 1. Útreikningur losunar á viðmiðunarári

  • Reikna losun gróðurhúsalofttegunda vegna þeirra þátta sem stefnan tekur til, yfir eins árs tímabil. Það tímabil er þá notað sem viðmiðunarár (grunnár) sem samdráttarmarkmið miðast síðan við.

Skref 2. Loftslagsstefna mótuð

  • Setja fram loftslagsstefnu sem inniheldur tölusett yfirmarkmið um samdrátt í losun.

Skref 3. Mælanleg markmið og aðgerðaáætlun

  • Setja mælanleg markmið fyrir hvern losunarþátt
  • Skilgreina aðgerðir með áherslu á stærstu þættina
  • Meta hversu miklum árangri aðgerðirnar skila
  • Kostnaðarmeta aðgerðirnar
  • Setja fram fjármagnaða og tímasetta aðgerðaáætlun sem skilar settu markmiði

Skref 4. Framkvæmd, eftirfylgni og endurskoðun

  • Ráðast í aðgerðir samkvæmt aðgerðaáætlun
  • Endurmeta markmið og aðgerðaáætlun með reglulegu millibili

Skref 1
Útreikningur losunar á viðmiðunarári

Áður en hafist er handa við að móta loftslagsstefnu er nauðsynlegt að reikna losun gróðurhúsalofttegunda yfir eins árs tímabil vegna þeirra þátta sem stefnan tekur til. Það tímabil er þá notað sem viðmiðunarár (grunnár) sem samdráttarmarkmið miðast síðan við. Sveitarfélögum er í sjálfsvald sett hvaða ár er notað sem viðmiðunarár en mikilvægt er að það komi skýrt fram í stefnunni og að til séu haldbær gögn fyrir það ár sem ná utan um umfang stefnunnar. Mikilvægt er að losun á viðmiðunarári sé lýsandi fyrir starfsemi sveitarfélagsins (t.d. gæti Covid19 hugsanlega hafa haft áhrif á losun ársins 2020).

Með því að reikna losun viðmiðunarárs er hægt að setja fram yfirmarkmið um heildarsamdrátt í losun sveitarfélagsins við mótun loftslagsstefnu í skrefi 2. Til að hægt sé að fylgjast með árangri af innleiðingu loftslagsstefnu er lykilatriði að halda utan um losun gróðurhúsalofttegunda fyrir hvert ár framvegis. Það gerir sveitarfélögum kleift að gera samanburð milli ára og forgangsraða aðgerðum eftir því hvernig losunin skiptist milli mismunandi losunarþátta.

Sveitarfélög geta notað losunarreikni sem sniðinn er að rekstri sveitarfélaga til að áætla losun gróðurhúsalofttegunda frá rekstrinum. Nauðsynleg gögn og upplýsingar fyrir útreikningana má oftast finna í bókhaldi sveitarfélagsins eða rekstrareininga þess.

Losunarstuðlar Umhverfisstofnunar eru innbyggðir í losunarreikninn. Þetta er gert til þess að gæta samræmis milli opinberra aðila. Ef sveitarfélög reikna losun vegna losunarþátta sem ekki eru skilgreindir í losunarreikninum eða ef notaðar eru önnur tæki en losunarreiknirinn, er mikilvægt að nota eftir sem áður sambærilega losunarstuðla, þ.e. losunarstuðla Umhverfisstofnunar eða aðra viðurkennda stuðla ef um er að ræða þætti sem losunarstuðlar Umhverfisstofnunar ná ekki til. Nánari umfjöllun um losunarþætti og losunarsvið má finna á síðunni losunarbókhald.

Vert er að taka fram að einn mikilvægasti þátturinn í verkefni sem þessu er að velja fólk til að halda utan um alla þræði stefnunnar. Mælst er til þess að skipaður verði verkefnisstjóri eða teymi til að tryggja góða innleiðingu loftslagsstefnu, innleiðingu aðgerða og eftirfylgni. Kjörið er að biðja þá nefnd eða ráð sem sér um umhverfismál sveitarfélagsins að sjá um undirbúningsvinnuna. Ef slíkur hópur er ekki til staðar er mælt með að setja hann á laggirnar en í því er hægt að fara ýmsar leiðir. Nauðsynlegt er að hafa stuðning yfirstjórnar og gott að hafa fjölbreytt teymi til þess að tryggja yfirsýn yfir ólíka starfsemi sveitarfélagsins.

Skref 2
Loftslagsstefna mótuð

Hér er tilgreint hvaða atriði þurfa að koma fram í loftslagsstefnu. Röð og heiti þessara sjö atriða skiptir ekki höfuðmáli en mikilvægt er að þau komi öll fram með skýrum hætti í loftslagsstefnunni:

1. Framtíðarsýn

Hér er settur fram tilgangur stefnunnar, metnaður sveitarfélags og hvernig horft er til framtíðar.

Frekari upplýsingar: Hér setur sveitarfélagið tóninn fyrir stefnuna í heild. Hvernig horfa loftslagsmálin við sveitarfélaginu og hvernig hyggst sveitarfélagið fara fram með góðu fordæmi með að draga úr eigin losun.

Dæmi: Sveitarfélagið Sjávarbyggð stefnir á að vera til fyrirmyndar í loftslagsmálum með því að draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda frá rekstrinum og þeim áhrifum sem losunin hefur í för með sér. Sjávarbyggð vill leggja sitt af mörkum til að markmiðum Parísarsamningsins verði náð og taka þannig virkan þátt í baráttunni við loftslagsbreytingar.

2. Yfirmarkmið

Hér er sett fram markmið um heildarsamdrátt í losun frá rekstri, að sveitarfélagið ætli að draga úr losun um x% fyrir árið x miðað við árið x.

Frekari upplýsingar: Mikilvægt er að setja sér markmið um heildarsamdrátt í losun frá rekstri. Markmiðið ætti að vera metnaðarfullt en raunsætt og taka mið af öðrum skuldbindingum, svo sem skuldbindingum ríkisins vegna Parísarsamningsins, yfirlýsingu yfirvalda um kolefnishlutleysi eða öðrum skuldbindingum sem sveitarfélagið er aðili að. Til að hægt sé að setja slíkt markmið fram þarf fyrst að fara í vinnu er snýr að útreikningum á losun gróðurhúsalofttegunda á viðmiðunarári (skref 1).

Dæmi: Fram til 2030 mun Sjávarbyggð draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna eigin reksturs um samtals 40% miðað við árið 2018.

3. Stefnan

Stefnan þarf að taka til helstu losunarþátta sem áhersla verður lögð á í aðgerðaáætlun sveitarfélagsins í loftslagsmálum. Ekki þarf að setja fram mælanleg markmið fyrir einstaka þætti í stefnunni sjálfri heldur eru slíkt sett fram aðgerðaáætluninni.
Stefnan skal að minnsta kosti taka til eftirfarandi losunarþátta og undirþátta þeirra:

a. Innkaup jarðefnaeldsneytis vegna reksturs sveitarfélagsins (t.d. á bifreiðar og tæki fyrir hvers kyns umhirðu innan sveitarfélags, s.s. götusópun, úrgangshirðu, skólaakstur, snjómoksturstæki, o.fl.)
b. Óbein innkaup jarðefnaeldsneytis (flug starfsfólks, notkun bílaleigubíla og leigubíla. Ef mögulegt er ætti einnig að áætla innkaup jarðefnaeldsneytis í verkefnum sem eru boðin út en tengjast daglegum rekstri, eins og sorphirðu)
c. Orka (öll raforka og hitaveita sem keypt er beint eða greitt fyrir í gegnum leigusamninga)
d. Úrgangur (úrgangur sem fellur til vegna eigin reksturs)

Frekari upplýsingar: Mikilvægt er að stefnan taki a.m.k. til ofangreindra þátta en sveitarfélög geta sannarlega tilgreint fleiri þætti svo sem ferðir starfsfólks til og frá vinnu, samgöngusamninga, losun vegna framkvæmda, úrgangur alls sveitarfélagsins o.s.frv.

Dæmi: Stefnan nær til innkaupa á jarðefnaeldsneyti vegna reksturs sveitarfélagsins, óbeinnar notkunar jarðefnaeldsneytis, innkaupa á orku og til meðhöndlunar úrgangs.

4. Gildissvið

Koma skal fram hvaða starfsemi fellur undir loftslagsstefnu.

Frekari upplýsingar: Mikilvægt er að það komi skýrt fram í stefnunni hvaða starfsemi hún tekur til, hvaða starfsemi hún tekur ekki til og hvers vegna.

Dæmi: Stefnan nær til allrar starfsemi Sjávarbyggðar, þ.e. reksturs skóla- og íþróttamannvirkja, sundlauga, bókasafna, rekstur áhaldahúss, sorphirðu o.s.frv.

5. Eftirfylgni

Í stefnunni skal koma fram hver er ábyrgur fyrir henni og hvernig henni verður fylgt eftir. Einnig skal tilgreina hvar hægt sé að nálgast upplýsingar um framgang stefnunnar.

Frekari upplýsingar: Hér kemur fram skuldbinding um að stefnan sé uppfærð og yfirmarkmið og undirmarkmið rýnd reglulega með það að markmiði að endurskoða hvort þau séu raunhæf og metnaðarfull. Eftirfylgni og endurskoðun þarf að taka mið af losunarbókhaldi. Eðlilegt er að upplýsingar um framgang stefnunnar séu birtar opinberlega og skal taka fram hvar hægt sé að nálgast þær.

Dæmi: Loftslagsstefna Sjávarbyggðar er rýnd á hverju ári af stýrihóp umhverfismála og yfirmarkmið og undirmarkmið uppfærð með tilliti til þróunar í losun gróðurhúsalofttegunda á milli ára. Stefnan er samþykkt af bæjarráði og upplýsingum um árangur aðgerða er miðlað á heimasíðu sveitarfélagsins.

6. Tenging við núverandi skuldbindingar
(ef við á)

Tengja skal stefnuna við aðrar mögulegar skuldbindingar sveitarfélagsins á sviði loftslagsmála.

Frekari upplýsingar: Ef sveitarfélag hefur skrifað undir yfirlýsingar eða er aðili að innlendum eða alþjóðlegum verkefnum á sviði loftslagsmála skal tengja stefnuna við þau verkefni.

Dæmi: Stefna þessi styður við loftslagssáttmála sveitarfélaga sem Sjávarbyggð hefur verið aðili að síðan 2011 og yfirlýsingu um kolefnishlutleysi Sjávarbyggðar fyrir árið 2040.

7. Kolefnisjöfnun

Hér kemur fram hvernig sveitarfélagið mun standa að kolefnisjöfnun vegna reksturs.

Frekari upplýsingar: Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að til þess að sporna gegn loftslagsbreytingum þarf fyrst og fremst að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þegar ekki er hægt að draga frekar úr losun er hægt að fjárfesta í verkefnum til kolefnisjöfnunar. Mikilvægt er að kolefnisjafna reksturinn með trúverðugum og ábyrgum hætti og er bent á leiðbeiningar Umhverfisstofnunar um kolefnisjöfnun í þessum tilgangi.

Dæmi: Sjávarbyggð mun fyrst og fremst leggja áherslu á að draga úr losun í rekstri en einnig kolefnisjafna alla eftirstandandi losun með kaupum á vottuðum kolefniseiningum frá og með árinu 2021.

Sé miðað við leiðbeiningarnar hér að ofan gæti loftslagsstefna sveitarfélags litið svona út:


Loftslagsstefna Sjávarbyggðar

Sveitarfélagið Sjávarbyggð stefnir á að vera til fyrirmyndar í loftslagsmálum með því að draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda frá starfseminni og þeim áhrifum sem losunin hefur í för með sér. Sjávarbyggð vill leggja sitt af mörkum til að markmiðum Parísarsamningsins verði náð og taka þannig virkan þátt í baráttunni við loftslagsbreytingar.

Fram til 2030 mun Sjávarbyggð draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna eigin reksturs um samtals 40% miðað við árið 2018. Sjávarbyggð mun fyrst og fremst leggja áherslu á að draga úr losun í rekstri en einnig kolefnisjafna alla eftirstandandi losun með kaupum á vottuðum kolefniseiningum frá og með árinu 2021.

Stefna þessi styður við loftslagssáttmála sveitarfélaga sem Sjávarbyggð hefur verið aðili að síðan 2011 og yfirlýsingu um kolefnishlutleysi Sjávarbyggð fyrir árið 2040.

Stefnan nær til innkaupa á jarðefnaeldsneyti vegna reksturs sveitarfélagsins, óbeinnar notkunar jarðefnaeldsneytis, innkaupa á orku og til meðhöndlunar úrgangs. Stefnan nær til allrar starfsemi Sjávarbyggðar, þ.e. reksturs skóla- og íþróttamannvirkja, sundlauga, bókasafna, rekstur áhaldahúss, sorphirðu o.s.frv.

Loftslagsstefna Sjávarbyggðar er rýnd á hverju ári af stýrihóp umhverfismála og yfirmarkmið og undirmarkmið uppfærð með tilliti til þróunar í losun gróðurhúsalofttegunda á milli ára. Stefnan er samþykkt af bæjarráði og upplýsingum um árangur aðgerða er miðlað á heimasíðu sveitarfélagsins.

 

Skref 3
Mælanleg markmið og aðgerðaáætlun

Markmiðasetning

Í loftslagsstefnu skal koma fram yfirmarkmið um heildarsamdrátt í losun (sjá skref 1 og skref 2). Til þess að fylgja loftslagsstefnunni eftir er nauðsynlegt að skilgreina einnig mælanleg markmið fyrir hvern losunarþátt. Mikilvægt er að sett séu metnaðarfull en raunhæf markmið um samdrátt í losun. Því er gott að leggjast vel yfir útreikninga á losun gróðurhúsalofttegunda á viðmiðunarári og meta hvar raunhæft sé að ná árangri í samdrætti, hvernig og hvenær.

Gott er að hafa eftirfarandi atriði í huga þegar markmið eru sett fram:

Skýr

Mikilvægt er að markmið séu hnitmiðuð og sértæk og að þau séu skilgreind til hlítar. Markmið eins og við ætlum að draga úr umhverfisáhrifum vegna starfsemi okkar er of víðtækt og almennt. Skýrari og sértækari markmið eru t.d. við ætlum að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna samgangna um x% eða við ætlum að draga úr urðun lífræns úrgangs um x% m.v. fyrra ár.

Mælanleg

Til þess að hægt sé að fylgjast með framgangi markmiða og hvenær þeim hefur verið náð er mikilvægt að markmið séu mælanleg og tengd við mælikvarða. Þar með er hægt að fylgjast með árangri aðgerða, aðlaga ef þörf krefur, hvetja starfsfólk til dáða og fagna þegar vissum áföngum er náð. Mikilvægt er að mælikvarðar endurspegli skýrt þau markmið sem eru sett fram. Í þessu samhengi liggur vel við að nota mælikvarða sem sýna losun gróðurhúsalofttegunda frá hverjum losunarþætti og hversu mikið losunin minnkar með mismunandi loftslagsaðgerðum sveitarfélagsins. Mismunandi mælikvarðar eiga við mismunandi markmið. Dæmi um mælikvarða eru t.d. hlutfall, fjöldi, tími og gæði.

Dæmi um ómælanleg markmið eru t.d. við ætlum að fræða starfsfólk um loftslagsmál, við ætlum að auka endurvinnslu og við ætlum að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna orkunotkunar. Sömu markmið með mælikvörðum gætu t.d. verið við ætlum að fræða starfsfólk um loftslagsmál með tveimur fyrirlestrum eða námskeiðum á árinu, við ætlum að ná 80% endurvinnsluhlutfalli og við ætlum að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna orkunotkunar um 5% m.v. fyrra ár.

Raunhæf

Markmiðin þurfa að vera þess eðlis að unnt sé að ná þeim. Óraunhæf markmið geta haft letjandi áhrif á starfsfólk þar sem ólíklegt er að þau náist og árangur því ekki sýnilegur.
Eftirfarandi spurningar er gott að hafa til hliðsjónar:

1. Er þetta rétti tíminn til að vinna að þessu markmiði?

2. Er nægur mannauður, fjármagn og tími til staðar til að markmiði verði náð?

Tímasett

Mikilvægt er að ákveða lokadagsetningu markmiðs. Það hvetur til dáða og ýtir undir mikilvægi þess að unnið sé að markmiðinu.
Eftirfarandi spurningar er gott að hafa til hliðsjónar:

1. Hvað tekur langan tíma að breyta ferlum við innkaup?

2. Hvað tekur langan tíma að breyta viðhorfum starfsfólks?

3. Hvenær er raunhæft að markmiðinu verði náð?

Gerð aðgerðaáætlunar

Til að ná markmiðum loftslagsstefnu þarf að ráðast í aðgerðir sem miða að því að draga kerfisbundið úr losun gróðurhúsalofttegunda. Í aðgerðaáætlun skulu aðgerðir vera tímasettar og hafa tilgreindan ábyrgðaraðila, en einnig er mælt með að áætla áhrif á losun og áætlaðan kostnað.

Þar sem loftslagsstefna er oft sett til 10 ára er aðgerðaáætlun skipt niður í styttri tímabil. Einnig er eðlilegt að endurskoða markmið og aðgerðaáætlun árlega m.t.t. fyrri árangurs og nýrrar þekkingar á sviði umhverfis- og loftslagsmála, svo og ef miklar breytingar verða á rekstri sveitarfélagsins.

Hér að neðan má nálgast sniðmát fyrir aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, ásamt leiðbeiningum við gerð hennar. Hugmyndir að aðgerðum má nálgast undir flipanum loftslagsaðgerðir.

Sniðmát að aðgerðaáætlun í loftslagsmálum:

Hlaða niður sniðmáti

Skref 4
Framkvæmd, eftirfylgni og endurskoðun

Þegar lokið hefur verið við útreikninga á viðmiðunarári, þegar loftslagsstefna hefur verið mótuð og samþykkt, þegar tölusett markmið og tímasettar aðgerðir hafa verið settar fram í aðgerðaáætlun og þegar búið er að ákveða ábyrgðaraðila fyrir hverri aðgerð, er hafist handa við að innleiða aðgerðir. Mikilvægt er að endurskoða markmið og aðgerðaáætlun árlega m.t.t. fyrri árangurs og nýrrar þekkingar á sviði umhverfis- og loftslagsmála, svo og ef miklar breytingar verða á rekstri sveitarfélagsins.