Loftslagsstefna sveitarfélaga

Sveitarfélög gegna lykilhlutverki þegar kemur að því að mæta áskorunum samtímans á sviði loftslagsmála. Sameiginlegur slagkraftur þeirra skiptir sköpum til að greiða fyrir þeim umskiptum sem þurfa að eiga sér stað til að markmiðum Parísarsamningsins verði náð og að Ísland nái að standa við loforð sitt um kolefnishlutleysi árið 2040. Jafnframt mun sú aðlögun íslensks samfélags að þeim breytingum sem þegar hafa átt sér stað og fyrirséðar eru vegna loftslagsbreytinga ekki eiga sér stað án aðkomu sveitarfélaganna.

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 70/2012 um loftslagsmál ber sveitarfélögum að setja sér loftslagsstefnu. Markmið laganna er að hið opinbera fari fram með góðu fordæmi þegar kemur að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með því að setja sér metnaðarfull markmið og móta aðgerðir til að fylgja þeim eftir. Tilgangur loftslagsstefnu er að auðvelda sveitarfélögum að draga markvisst úr áhrifum vegna losunar gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi sinni og vera til fyrirmyndar með því að hafa bein og óbein áhrif á loftslagsskuldbindingar Íslands. Stefnan skal innihalda skilgreind markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnisjöfnun sveitarfélagsins ásamt aðgerðum svo að þeim markmiðum verði náð.

Sveitarfélög hafa í auknum mæli unnið beint að loftslagsmálum. Í sumum tilvikum hefur sú vinna snúist um losun frá samfélaginu öllu en ekki einungis frá rekstri sveitarfélagsins – og þá gjarnan á vettvangi landshlutasamtaka sveitarfélaga. Þrjú sveitarfélög á Íslandi eru aðilar að Global Covenant of Mayors for Climate & Energy (GCoM) og ber þá að skila losunarbókhaldi frá öllu samfélaginu í gagnagátt verkefnisins CDP.

Spurt og svarað

Áður en hafist er handa við að móta loftslagsstefnu sveitarfélagsins er gott að átta sig á eftirfarandi atriðum:

Hvernig uppfyllir sveitarfélagið skyldur sínar skv. lögum um loftslagsmál?

Samkvæmt 5. gr. c. í lögum nr. 70/2012 um loftslagsmál ber sveitarfélögum að setja sér loftslagsstefnu. Stefnan skal innihalda skilgreind markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnisjöfnun starfseminnar ásamt aðgerðum svo að þeim markmiðum verði náð.

Umhverfisstofnun hefur eftirlit með því að sveitarfélög setji sér loftslagsstefnu, skv. lögum um loftslagsmál, og innleiði aðgerðir samkvæmt henni. Á innri gátt þessarar vefsíðu er skilagátt þar sem sveitarfélög geta skilað loftslagsstefnu sinni til Umhverfisstofnunar.

Hvert er gildissvið loftslagsstefnunnar?

Loftslagsstefnan skal taka til alls reksturs sveitarfélagsins. Með rekstri er átt við rekstur allra þeirra eininga sem falla undir sveitarfélagið, t.d. skrifstofur, skólar, sundlaugar og bókasöfn. Loftslagsstefna sveitarfélagsins getur náð til sjálfstæðra eininga í meirihlutaeigu sveitarfélaga (fyrirtæki og stofnanir í B-hluta) séu þær í minni kantinum. Eðlilegt er að stórar sjálfstæðar einingar séu með eigin loftslagsstefnu sem er ótengd stefnumótun sveitarfélagsins. Sveitarfélaginu er frjálst að meta hvaða sjálfstæðu einingar (fyrirtæki og stofnanir í B-hluta) séu hluti af loftslagsstefnu sveitarfélagsins. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að vinna við loftslagsstefnu felur í sér gerð stefnunnar sjálfrar, setningu mælanlegra markmiða og gerð aðgerðaáætlunar.

Ekkert er því til fyrirstöðu að sveitarfélög setji sér einnig stefnu í loftslagsmálum fyrir sveitarfélagið í heild sinni eins og sum sveitarfélög hafa nú þegar gert, sjá dæmi hér fyrir neðan.

Tenging loftslagsstefnu við aðra stefnumótun sveitarfélags

Loftslagsstefna fyrir rekstur sveitarfélagsins getur staðið sér eða verið hluti af breiðari stefnumótun svo sem loftslagsstefnu fyrir sveitarfélagið í heild, umhverfis- eða sjálfbærnistefnu, stefnu um samfélagslega ábyrgð, aðalskipulagi o.s.frv. Óháð því hvort stefnan sé felld inn í aðrar stefnur eða ekki þarf sveitarfélagið að geta sýnt fram á að það hafi sett sér loftslagsstefnu sem nær til innri reksturs og þar með uppfyllt skyldu sína skv. lögum um loftslagsmál.

Tengja má loftslagsstefnu sveitarfélaga beint við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun með sérstakri áherslu á markmið 11 (vistvænar samgöngur, loftgæði og úrgangur), 12 (vistvæn innkaup) og 13 (stefnumótun í loftslagsmálum).

Losun gróðurhúsalofttegunda vegna reksturs og mælanleg markmið

Til að hægt sé að setja sér mælanleg markmið þarf að reikna losun gróðurhúsalofttegunda frá rekstri sveitarfélagsins. Valið er viðmiðunarár sem miðað er við í allri markmiðasetningu. Hægt er að notast við losunarreikni sniðinn að rekstri sveitarfélaga í þessum tilgangi. Þessi losunarreiknir gerir sveitarfélögum kleift að reikna losun gróðurhúsalofttegunda frá rekstri sínum ásamt því að vista gögn til þess að fylgjast með árangri aðgerða yfir tíma. Frekari upplýsingar um losunarbókhald og mikilvægi þess má finna á viðeigandi undirsíðu.

Hvenær þarf loftslagsstefna sveitarfélagsins að vera tilbúin?

Sveitarfélög eru hvött til að hefjast strax handa við að móta sér loftslagsstefnu og nýta þær leiðbeiningar og þau verkfæri sem finna má á þessari vefsíðu sér til aðstoðar. Í nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012, með síðari breytingum, er lögð áhersla á að við gerð loftslagsstefnu sveitarfélaga verði stefnt að því að stefnan verði fullbúin fyrir árslok 2021.

Hvernig er eftirfylgni með loftslagsstefnum sveitarfélaga háttað?

Eftirlit með framkvæmd loftslagsstefnu er á ábyrgð sveitarstjórnar. Umhverfisstofnun hefur eftirlit með því að sveitarfélög setji sér loftslagsstefnu, skv. lögum nr. 70/2012 um loftslagsmál, og innleiði aðgerðir samkvæmt henni. Á innri gátt þessarar vefsíðu er að finna skilagátt þar sem sveitarfélög geta skilað loftslagsstefnu sinni, auk aðgerðaráætlunar, til Umhverfisstofnunar.

Hversu oft þarf að uppfæra
stefnuna sjálfa?

Mælst er til þess að loftslagsstefnan sé sett til 10 ára og sé yfirfarin árlega. Eðlilegt er að endurskoða markmið og aðgerðaáætlun árlega m.t.t. fyrri árangurs og nýrrar þekkingar á sviði umhverfis- og loftslagsmála. Ef miklar breytingar verða á rekstri sveitarfélagsins, svo sem með sameiningu sveitarfélaga eða verulegs uppgangs eða samdráttar í rekstri, skal stærri endurskoðun fara fram þar sem rýna skal sérstaklega þær aðgerðir sem settar hafa verið fram auk tölulegra markmiða.