Reykjavíkurborg

Reykjavíkurborg setti sér fyrst loftslagsstefnu árið 2009.

Ábyrgð með eftirfylgni loftslagsbókhalds og loftslagsstefnu er hjá umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur samkvæmt samþykktum ráðsins, liður D.6.

Árið 2016 setti Reykjavík sér stefnu um að verða kolefnishlutlaus fyrir árið 2040 og ítarleg aðgerðaáætlun sett fram. Aðgerðaáætlunin var endurskoðuð 2021 og gildir til lok þessa árs 2025.

Reykjavík er aðili að Evrópusamstarfi um 112 kolefnishlutlausar og snjallar borgir árið 2030. Uppbygging og stjórnsýsla verkefnisins er að fyrirmynd Net Zero Cities sem reka verkefnið fyrir hönd Evrópusambandsins. Útkoma verkefnisins er loftslagsborgarsamningur með aðkomu þátttakenda sem vilja styðja við að Reykjavík verði kolefnishlutlaus 2030. Pólitískur stýrihópur tryggir framvindu verkefnisins, í þeim hópi sitja oddvitar allra flokka í borgarstjórn. Starfshópur starfar í umboði stýrihópsins við að útbúa loftslagsborgarsamning og fylgja honum eftir. Fyrsta útgáfa loftslagsborgarsamningsins var undirrituð í október 2024 með 15 aðgerðum og 18 þátttakendum. Gert er ráð fyrir að samningurinn verði endurnýjaður á 2 ára fresti fram til ársins 2030, þ.e. 2026 og 2028.

Yfirmarkmið: Markmið Reykjavíkurborgar er að verða kolefnishlutlaus fyrir árið 2030 og að aðlögun að loftslagsbreytingum verði með vistvænum og mannvænum hætti. Stutt verður við markmið Parísarsamkomulagsins um að halda hnattrænni hlýnun innan við 1,5°C.

Gildandi loftslagsstefna: Loftslagsmál Reykjavíkurborgar

Gildandi aðgerðaáætlun: Aðgerðaráætlunin birtist í 1. útgáfu loftslagsborgarsamningsins, sjá hér

Reynsla og ráðleggingar:

  • Nauðsynlegt er að þekkja kolefnisfótspor sveitarfélagsins til að ákveða forgangsröðun aðgerða, bæði samfélagslega og rekstrarlega fótsporið. Samfélagslegt kolefnisfótspor Reykjavíkur er margfalt stærra en ef eingöngu er horft til reksturs.
  • Mikilvægt að aðgerðaáætlunin sé þvert á starfsemi sveitarfélagsins og ábyrgðinni dreifstýrt á viðeigandi einingar s.s. skipulag, framkvæmdir, úrgangsmál og samgöngumál þó að yfirsýnin sé á einum stað. Þannig er mögulegt að margar aðgerðir séu í gangi á sama tíma.
  • Það var árangursríkt að samræma flokkunarkerfi sveitarfélaga á Höfuðborgarsvæðinu á sama tíma og gas og jarðgerðarstöð, GAJA var tekin í notkun.
  • Markviss innleiðing hjólreiðaáætlunar hefur reynst vel til að efla hjólreiðar sem samgöngumáta
  • Samstarf við nágrannasveitarfélög og ríkið um samgöngur (samgöngusáttmáli Höfuðborgarsvæðisins) er nauðsynlegt þegar um eitt sameiginlegt atvinnusvæði er að ræða.

Hrós!

Loftslagsmál hafa notið víðtæks stuðnings kjörinna fulltrúa og starfsfólks Reykjavíkurborgar sem er virkilega þakkarvert. Einnig má hrósa Loftslagsráði fyrir gagnlegar greinargerðir um loftslagstengd málefni, fræðsluefni og skilgreiningu á hugtökum.

Tengiliður: Hrönn Hrafnsdóttir, Deildarstjóri loftslagsmála, Aðalskipulag og loftslagsmál, Umhverfis- og skipulagssvið, hronn.hrafnsdottir@reykjavik.is

 

Myndir af aðgerðum

Síðast uppfært: 23.09.2025