Reykjanesbær

Umsjón með vinnu við undirbúning og mótun tillögu stefnunnar sem nær til ársins 2035 var í höndum framtíðarnefndar og umhverfis- og skipulagsráðs. Gert er ráð fyrir reglulegri endurskoðun og uppfærslu stefnunnar, markmiða og aðgerðaáætlunar hennar þar sem gera má ráð fyrir breytingum í tækni, þekkingu og viðhorfum á komandi árum sem hafa áhrif á framvindu loftslags- og umhverfismála. Bæjarstjóri ber ábyrgð á framkvæmd stefnunnar.

Yfirmarkmið: Umhverfis- og loftslagsstefnu Reykjanesbæjar er ætlað að lágmarka umhverfisáhrif frá starfsemi sveitarfélagsins, tryggja stöðugar umbætur og framþróun til móts við sjálfbæra framtíð og vera leiðarljós starfsmanna á þeirri vegferð. Hún tekur mið af stefnuáherslu um „Vistvænt samfélag“ í grunnstefnu Reykjanesbæjar auk Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Stefnan felur meðal annars í sér skuldbindingu um kolefnishlutleysi sveitarfélagsins árið 2040, aðlögun vegna loftslagsvár og markmið um innleiðingu hringrásarhagkerfisins, náttúruvernd og umhverfisfræðslu.

Gildandi loftslagsstefna: hlekkur

Gildandi aðgerðaáætlun: Ekki hefur verið mótuð aðgerðaáætlun, en verkefnin eru þverfagleg og ná yfir mörg svið.

Reynsla og ráðleggingar:

  • Stefnan sem hér hefur verið samþykkt er metnaðarfull, en til að hún nái raunverulegum árangri hefði þurft að fylgja henni eftir með skýrri aðgerða- og framkvæmdaráætlun. Slíkar áætlun hefði tryggt næstu skref, á hvaða tímapunkti, fjármagni og með hvaða ábyrgðaraðilum. Það skiptir máli að þátttaka í gerð stefnunnar og í framhaldi aðgerða- og framkvæmdaáætlana sé sem víðtækust, þannig að bæði starfsfólk og kjörnir fulltrúar leggi sitt af mörkum og áætlunin byggi á raunhæfum forsendum sveitarfélagsins.
  • Reykjanesbær hefur allt frá árinu 2019 lagt áherslu á umhverfismál með því að mæla kolefnisspor sitt í samstarfi við Klappir – grænar lausnir. Markmiðið með þessari vinnu er að fá heildstæða mynd af kolefnislosun sveitarfélagsins, þannig að við getum markvisst unnið að því að draga úr henni og gripið til aðgerða sem skila raunverulegum árangri fyrir sveitarfélagið.
  • Meðal verkefna sem hafa stuðlað að minni losun má nefna fjölgun rafhleðslustöðva og bættar, umhverfisvænar almenningssamgöngur. Þá hefur orkunýting verið hámörkuð með aukinni notkun LED lýsingar, bæði í húsnæði og götulýsingu. Einnig hefur verið unnið að eflingu innviða fyrir vistvænni ferðamáta með þróun heilsustígakerfis og innleiðingu blágrænna lausna við skipulag nýrra hverfa, svo fátt eitt sé nefnt.
  • Mikilvægt er, þrátt fyrir þann árangur sem þegar hefur náðst, að færa tiltekin atriði stefnunnar yfir í framkvæmdaáætlun og sjá til þess að þau fái viðeigandi fjárhagslegan stuðning.
  • Vert er að nefna að sveitarfélagið hefur einnig í samstarfi við fagaðila mótað uppgræðslu- og skógræktaráætlun. Þó erfitt geti verið að meta kolefnisbindingu nákvæmlega án formlegs matsferlis, er skógrækt engu að síður áhrifaríkasta náttúrulega leiðin til að draga úr magni gróðurhúsalofttegunda. Um leið er þetta langtímaverkefni sem styrkir vistkerfi, eykur líffræðilegan fjölbreytileika og stuðlar að heilbrigðara umhverfi til framtíðar.

 

Síðast uppfært: 17.09.2025