Aðlögun sveitarfélaga að loftslagsbreytingum

Áhrif loftslagsbreytinga eru þegar farin að hafa áhrif á samfélög, innviði og náttúru og munu þau aukast á næstu árum og áratugum. Samhliða því að draga úr losun til að takmarka þessar afleiðingar loftslagsbreytinga er nauðsynlegt að bregðast við þeim með skipulögðum hætti. Þetta kallast aðlögun að loftslagsbreytingum.

Sveitarfélög gegna lykilhlutverki í því að tryggja öryggi íbúa sinna í ljósi loftslagsvárinnar með því að ráðast í aðlögunaraðgerðir. Aðlögun getur verið alls konar og þarf að sérsníða hana m.t.t.  staðbundinna aðstæðna. Áhrifin sem þarf að aðlagast eru breytileg eftir landshlutum og jafnvel innan þeirra. Því er mikilvægt að byggja aðlögunaráætlanir og aðlögunaraðgerðir sveitarfélaga á staðbundnu viðkvæmni- og áhættumati sem tekur mið af breyttum aðstæðum vegna loftslagsbreytinga.

Takmörkuð innlend reynsla er af gerð áhættu- og viðkvæmnimats sveitarfélaga vegna loftslagsbreytinga, sem og gerð aðlögunaráætlana sveitarfélaga og mótun aðlögunaraðgerða. Þessi málaflokkur er því enn á ákveðnu frumstigi á Íslandi þrátt fyrir brýna nauðsyn þessara aðgerða til að takmarka tjón á fólki og innviðum og þar með fjárhagslegt tjón.

Þó er ljóst að stefnumótun og áætlanagerð af hálfu ríkisins er í vinnslu, m.a. á vettvangi verkefnisstjórnar loftslagsaðgerða þar sem Samband íslenskra sveitarfélaga á sæti (sjá reglugerð 786/2024). Breytingar á lögum um loftslagsmál eru fyrirhugaðar (sjá  mál nr. S-97/2025 í Samráðsgátt, frumvarp til laga um loftslagsmál) og er viðbúið að auknar kröfur verði settar á sveitarfélög um aðlögun að loftslagsbreytingum.

Þróun hagnýtra upplýsinga, leiðbeininga og annars efnis fyrir þessa aðlögunarsíðu í Verkfærakistu loftslagsvænni sveitarfélaga er liður í fyrirhugaðri aðgerð Sambandsins í aðlögunaráætlun Íslands (sjá mál nr. S-155/2025 í Samráðsgátt, drög að aðgerðalista aðlögunaráætlunar vegna áhrifa loftslagsbreytinga á Íslandi). Sótt hefur verið um fjármögnun fyrir innleiðingu áætlunarinnar í gegnum LIFE, Umhverfis- og loftslagsáætlun Evrópusambandsins en þar spilar endurbætt og útvíkkuð Verkfærakista loftslagsvænni sveitarfélaga einmitt stórt hlutverk.

Sá hluti verkfærakistunnar sem snýr að aðlögun sveitarfélaga að loftslagsbreytingum verður því uppfærður þegar nýjar upplýsingar liggja fyrir og eftir því sem bolmagn og fjármagn leyfir næstu mánuði og ár. Hér að neðan má nálgast upplýsingar um aðlögun að loftslagsbreytingum sem gætu nýst sveitarfélögum við að hefja vinnu við að greina hvar þau standa höllustum fæti gagnvart loftslagsbreytingum, mótun aðlögunaraðgerða og forgangsröðun þeirra.

gerð aðlögunaráætlunar.

Ítarefni um aðlögun að loftslagsbreytingum: