
Aðgerðabanki
Til að ná markmiðum loftslagsstefnu er nauðsynlegt að ráðast í aðgerðir sem miða að því að draga kerfisbundið úr losun gróðurhúsalofttegunda. Undir flipanum gerð loftslagsstefnu má nálgast upplýsingar um verklag við gerð aðgerðaáætlunar og hvaða skref þarf að stíga áður en hafist er handa við að setja fram tímasetta áætlun um aðgerðir í loftslagsmálum.
Sveitarfélög geta ráðist í margvíslegar aðgerðir til að draga úr losun frá rekstri sínum og hér að neðan má finna hugmyndir að slíkum aðgerðum. Aðgerðunum er skipt í níu flokka eftir losunarþáttum eða áherslum. Þetta er ekki tæmandi listi aðgerða heldur er einungis verið að sýna hugmyndir að árangursríkum aðgerðum sem sveitarfélög geta nýtt sér. Fleiri hugmyndir að aðgerðum má t.d. finna í gátlistum Grænna skrefa og aðgerðaáætlunum fyrirtækja og ríkisstofnana í umhverfis- og loftslagsmálum.
Aðgerðir umfram rekstur sveitarfélaga
Heildarlosun sveitarfélags er hugtak sem nær yfir alla þá losun sem á sér stað innan marka sveitarfélagsins, þ.e. frá íbúum, fyrirtækjum, stofnunum, samgögnum, landnotkun og annarri starfsemin innan sveitarfélagsmarka.
Hér að neðan má finna hugmyndir að aðgerðum sem miða að því að draga úr heildarlosun sveitarfélagsins, auka bindingu og aðlaga sveitarfélagið að loftslagsbreytingum. Flestar aðgerðirnar styðja vel við aðgerðir sem miða að því að draga úr losun frá rekstri sveitarfélaga.
Loftslagsvænni samgöngur
- Uppbygging göngu- og hjólastíga: Unnin verður úttekt á merkingum og frekari uppbyggingu göngu- og hjólastíga í sveitarfélaginu, með sérstakri áherslu á ferlimál fatlaðra, svo sem með skábrautum á gangstéttarbrúnum. Hugað verður sérstaklega að öryggisþáttum í þessu sambandi, t.d. vegna annarrar umferðar, yfirborðsmerkingum og lýsingu.
- Fjölbreyttur samgöngumáti: Ráðist verður í átak til að greiða leið þeirra sem vilja og geta nýtt sér aðra samgöngumáta en einkabílinn. Aðgerðir geta t.d. falist í frekari uppbyggingu göngustíga og hjólastíga í þéttbýli og bættu aðgengi að rafknúnum reiðhjólum og hlaupahjólum t.d. með því að styðja við deilihagkerfislausnir í þá veru.
- Úttekt á almenningssamgöngum: Unnin verður úttekt á almenningssamgangnakerfi sveitarfélagsins, tíðni aukin og leiðarkerfi bætt og gerð áætlun um orkuskipti í almenningssamgöngum. Samhliða verður gerð greining á því hvernig bæta megi þjónustustigið. Til að auka notkun á almenningssamgöngum er lykilatriði að taka mið af þörfum notandans fyrir að komast á milli staða, bæði innanbæjar og utan, með skjótum og einföldum hætti.
Loftlagsvænni byggð
- Bætt meðhöndlun úrgangs: Leitað verður leiða, m.a. í samstarfi við úrgangsfyrirtæki, til að hámarka flokkun og endurvinnslu þess úrgangs sem til fellur í sveitarfélaginu. Jafnframt verða sérstaklega kannaðir möguleikar á að lífrænn úrgangur verði jarðgerður og nýttur á svæðinu og skoðað sérstaklega hvort og hvernig auka megi gæði og bæta nýtingu afurðarinnar. Þó skal athuga í þessu samhengi að uppbygging líforkuvers sem á að þjóna landinu öllu er aðgerð í aðgerðaáætlun um loftslagsmál og er hún í undirbúningi.
- Sérsöfnun lífræns úrgangs: Hafin verður sérsöfnun á lífrænum úrgangi sem fellur til hjá íbúum sveitarfélagsins. Aðstöðu til flokkunar verði komið upp við öll heimili í sveitarfélaginu. Athugið að þetta er lögbundið verkefni sveitarfélaga.
- Fræðsla: Íbúar sveitarfélagsins fá fræðslu um úrgangsforvarnir, flokkun og endurvinnslu. Útbúið verði kynningarefni þar sem bent verður á leiðir til að koma í veg fyrir að úrgangur myndist. Þá verður fjallað sérstaklega um mikilvægi flokkunar til að tryggja sem best hámarksnýtingu þeirra auðlinda sem til staðar eru í úrganginum.
Loftslagsvænni landnotkun
- Kortlagning landnýtingar/landbúnaðarlands: Landnýting í sveitarfélaginu verður kortlögð, einkum með tilliti til votlendis (óraskaðs og framræsts), beitilands (og nýtingar þess) og rofsvæða.
- Aðgerðaáætlun um sjálfbæra landnýtingu: Á grundvelli kortlagningar á landnýtingu verður gerð tímasett aðgerðaáætlun sem miðar að því að koma í veg fyrir frekari röskun vistkerfa og bæta úr því sem aflaga hefur farið. Aðgerðaáætlunin felur í sér tillögur um endurheimt votlendis þar sem aðstæður leyfa, aðgerðir til að koma í veg fyrir að beitiland sé nýtt umfram beitarþol og um uppgræðslu rofsvæða. Hægt er að vinna slíka áætlun um sjálfbæra landnýtingu í samráði við Land og skóg.
- Átak í endurheimt votlendis: Á grundvelli aðgerðaáætlunar um landnýtingu verður ráðist í að endurheimta óræktað framræst votlendi sem leið til að draga úr losun frá landi.
- Hertar takmarkanir á framræslu votlendis og bætt eftirlit: Á grundvelli aðgerðaáætlunar um landnýtingu verður ráðist í yfirferð verkferla og eftirlits vegna framræslu votlendis í sveitarfélaginu með það að markmiði að takmarka framræslu eins og kostur er. Sérstök áhersla verði lögð á eftirlit vegna útgáfu framkvæmdaleyfa.
- Efling nýskógræktar til kolefnisbindingar: Á grundvelli aðgerðaáætlunar um landnýtingu verður ráðist í eflingu nýskógræktar til að auka bindingu kolefnis í trjám.
- Efling landgræðslu til kolefnisbindingar og stöðvun kolefnistaps úr jarðvegi: Á grundvelli aðgerðaáætlunar um landnýtingu verður landgræðsla efld til að auka bindingu kolefnis í jarðvegi og gróðri, ásamt því að stöðva jarðvegsrof og þar með tap á kolefni úr jarðvegi.
Stefnumótun og skipulag
- Útreikningur á kolefnisspori sveitarfélagsins: Heildarlosun sveitarfélagsins verður reiknuð og niðurstöðurnar birtar í árlegu losunarbókhaldi. Útreikningarnir verða eftir föngum látnir ná til allrar losunar innan marka sveitarfélagsins, svo og til allrar kolefnisbindingar á sama svæði. Útreikningur á kolefnisspori myndar grunn fyrir heildstæða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.
- Heildstæð aðgerðaáætlun sveitarfélagsins í loftslagsmálum: Tímasett aðgerðaáætlun í loftslagsmálum verður gerð til að draga úr allri losun innan marka sveitarfélagsins. Í áætluninni verður gerð grein fyrir aðgerðum til að minnka kolefnisspor sveitarfélagsins þar til kolefnishlutleysi er náð árið 2030/2035/2040. Í áætluninni verður gerð grein fyrir verkefnum sem miða annars vegar að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og hins vegar að því að bregðast við og aðlagast afleiðingum loftslagsbreytinga. Áætlunin verður gerð til fimm ára í senn og endurskoðuð árlega.
- Samþætting loftslagssjónarmiða við áætlanagerð sveitarfélagsins: Í áætlanagerð sveitarfélagsins á öllum sviðum, þ.m.t. í fjárhagsáætlun, verður fjallað sérstaklega um loftslagsáhrif einstakra verkefna, þ.m.t. áhrif á kolefnisspor sveitarfélagsins.
- Áætlun um aðlögun að loftslagsbreytingum: Unnin verður áætlun um aðlögun að loftslagsbreytingum sem byggir á heildstæðu áhættu- og viðkvæmnimati. Áætlunin gæti m.a. innihaldið aðgerðir vegna sjávarflóða, skoðun á uppbyggingu sjóvarnargarða, skipulag blágrænna ofanvatnslausna, aðgerðir vegna aukinna þurrka, aðgerðir vegna aukinnar tíðni snjóflóða og aurskriða o.fl. Hægt er að nýta gögnin og myndræna viðmótið í Loftslagsatlas Íslands til að hefja kortlagningu á helstu áhættuþáttum sem sveitarfélagið stendur frammi fyrir.
Lögbundin (loftslags)verkefni
Upplýsingar í vinnslu.
Fjármögnun loftslagsaðgerða: Sjóðir og styrkir
Beinir styrkir til sveitarfélaga
- Sveitarfélög geta sótt í Landbótasjóð til að fjármagna verkefni sem snúa að verndun og endurheimt þurrlendisvistkerfa (t.d. til að koma í veg fyrir sandfok og moldrok, auka flóðadempun jarðvegs, koma í veg fyrir landrof o.fl.) og geta einnig fengið allan framkvæmdakostnað endurgreiddann frá Landi og skógi ef slík endurheimtarverkefni eru unnin í samstarfi við Land og Skóg.
- Sveitarfélög geta sótt um styrki til orkuskipta í Loftslags- og orkusjóð. Allt sem stuðlar að samdrætti í losun og orkuskiptum getur átt möguleika á úthlutun úr sjóðnum. Sjóðurinn styður jafnframt við verkefni sem stuðla að orkuöryggi og samkeppnishæfni á sviði orkumála m.a. á grundvelli stefnu stjórnvalda í loftlagsmálum.
- Rafbílastyrkir – hér geta sveitarfélög sótt um fyrir fólksbíla og sendiferðabíla: Rafbílastyrkir | Ísland.is
Styrkir fyrir vöru og hópferðabíla: Styrkir til kaupa á hreinorku eða losunarfríum vöru- og hópferðaökutækjum | Ísland.is - Úrvinnslusjóður greiðir sveitarfélögum fyrir sérstaka söfnun úrgangs ef að sveitarfélög skila til sjóðsins fullnægjandi gögnum um söfnun á vegum sveitarfélagsins.
- Sveitarfélög geta sótt um framlag úr ríkissjóði til stuðnings við fráveituframkvæmdir sveitarfélaga sbr. reglugerð þar um. Styrkfjárhæð nemur að jafnaði um 20% af staðfestum heildarkostnaði. Skilyrði fyrir styrkveitingu er að fráveituframkvæmdin sé áfangi í heildarlausn á fráveitumálum sveitarfélags í samræmi við áætlun sem hlotið hefur samþykki umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins.
- Þá geta sveitarfélög sótt í Fiskeldissjóð, en þar er m.a. horft til verkefna sem snúa að loftslagsmarkmiðum og umhverfisvernd, styrkari samfélagsgerð og uppbyggingu innviða.
- Framkvæmdasjóður ferðamannastaða
- LIFE, umhverfis- og loftslagsáætlun Evrópusambandsins
- Lánasjóður sveitarfélaga – græn lán
- Byggðastofnun
- Styrkir fyrir endurheimt votlendis hjá Landi og Skógi
- Styrkir fyrir varnir gegn landbroti hjá Landi og Skógi
- Í öllum landshlutum, utan höfuðborgarsvæðis, eru starfræktir uppbyggingarsjóðir sem styrkja verkefni sem falla að sóknaráætlunum landshluta. Um er að ræða samkeppnissjóði þar sem gerð er krafa um 50% mótframlag.
Blandaðir styrkir sveitarfélög og íbúa
- Eingreiðsla vegna umhverfisvænnar orkuöflunnar (Umhverfis- og orkustofnun)
Til þessa styrks nær einnig búnaður eins og viðarperluofnar, sólarsellur, vindrellur auk varmadæla. Einstaklingar sem eru með niðurgreiðslu á rafhitun frá Umhverfis- og orkustofnun geta sótt um þennan styrk. Einnig er hægt að sækja um þennan styrk fyrir kirkjur, söfn og félagsheimili þó þau séu í eigu sveitarfélaganna. - Niðurgreiðsla á rafmagni til húshitunar: skilyrði fyrir niðurgreiðslu eru að ekki sé aðgengi að hitaveitu og að í fasteigninni sé lögheimilisskráning en ekki rekstur. Undanþága gildir ef húsnæði er safnhús, kirkja eða félagsheimili.
Styrkur frá sveitarfélögum
Sveitarfélög geti boðið upp á viðbótarstyrki við Eingreiðslustyrk Umhverfis- og orkustofnunar til að taka þátt og styðja við varmadæluvæðingu á þeim svæðum þar sem er rafhitun og ekki stendur til að hitaveituvæða svæðið.